image description

Markaðs- og kynningarmál

Starfsárið var það fyrsta þar sem ekki var prentaður námsvísir með yfirliti yfir námskeið IÐUNNAR og þjónustu og honum dreift til félagsmanna. Áhersla var heldur lögð á auglýsingar og kynningarefni á vef og í samfélagsmiðlum. Áfram voru stök námskeið auglýst í prentmiðlum, t.a.m. í landsbyggðarblöðum. Prent- og miðlunarsvið gaf auk þess út sérstakt kynningarefni fyrir sín námskeið.

Vefur IÐUNNAR

Námskeiðsframboð IÐUNNAR er aðgengilegt í heild sinni á vefnum. Á vefnum fer einnig fram skráning á námskeið og öll umsýsla með námskeiðsskráningar, mætingar og ýmislegt sem varðar framkvæmd námskeiða. Í dag er vefurinn vafalítið mikilvægasta markaðstæki IÐUNNAR. Vefurinn er í stöðugri þróun, bæði sá hluti sem snýr að félagsmönnum og almenningi og einnig þau verkfæri vefsins sem starfsmenn nýta sér.

Mínar síður

Á starfsárinu var lögð áhersla á að efla „Mínar síður“ á vef IÐUNNAR. Mínar síður veita félagsmönnum aðgang að upplýsingum um eigin námsferil og þar geta fyrirtæki jafnframt sótt upplýsingar um námskeið sem þau hafa greitt fyrir sína starfsmenn. Mínar síður veita einnig aðgengi að viðurkenningarskjölum fyrir lokin námskeið, en þau er nú hægt að sækja rafrænt (á pdf sniði).

Markpóstur

Yfir 6000 einstaklingar eru á markpóstalistum IÐUNNAR fræðsluseturs og fer fjölgandi. Í hverri viku eru sendir út markpóstar frá öllum sviðum með upplýsingum um námskeið á næstunni. Markpóstar eru mikilvæg markaðssetning og verða það áfram í náinni framtíð.

Samfélagsmiðlar og vefauglýsingar

Samfélagsmiðlar leika sífellt stærra hlutverk í markaðsstarfi IÐUNNAR. Á starfsárinu var farið í samstarf við auglýsingastofuna Sahara um herferð til að kynna raunfærnimat. Tókst herferðin vel og í kjölfarið hefur markaðssetning á samfélagsmiðlum verið aukin.

 

Myndskeið í markaðssetningu

Áhersla hefur verið lög á að nýta myndskeið sem mest og best í markaðssetningu námskeiða og viðburða sem IÐAN fræðslusetur stendur fyrir eða tekur þátt í.

Önnur markaðssetning

Auk beinnar markaðssetningar tekur IÐAN fræðslusetur þátt í ýmsum viðburðum, s.s. mannauðsdeginum þar sem IÐAN er reglulega með kynningarbás.


 Helstu verkefni stjórnar | IÐAN í tölum